Hvađ get ég gert fyrir Grindavík?

  • Fréttir
  • 16. desember 2013

Um þessar mundir minnist heimsbyggðin tveggja manna sem hafa haft mikil áhrif á samfélagið. Nú eru 50 ár liðin frá því John F. Kennedy var myrtur og þann 6. desember lést Nelson Mandela. Báðir tóku þessir menn virkan þátt í samfélaginu og voru hvatning fyrir aðra. JFK beitti sér mjög fyrir bættum hag og réttindum minnihlutahópa í Bandaríkjunum og hvatti fólk til þátttöku. Í setningarræðu sinni sem forseti Bandaríkjanna sendi hann frá sér þessa eftirminnilegu hvatningu. ,,Spurðu ekki hvað land þitt getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir land þitt".

Nelson Mandela barðist allt sitt líf fyrir breyttu samfélagi og bættum hag og réttind-um svartra í Suður-Afríku. Líklega hafa fáir menn haft eins mikil áhrif á samfélag sitt og einmitt hann. Ekki aðeins átti hann drjúgan þátt í því að jafna réttindi fólks í Suður-Afríku, heldur átti hann stærstan þátt í því að stuðla að sátt milli hvítra og svartra. Ekki var sjálfgefið að þessir hópar gætu lifað í þokkalegri sátt eftir það sem á undan var gengið, en hann hvatti til fyrirgefningar, samstöðu og þátttöku við að byggja upp nýja Suður-Afríku. 

Á sama hátt og þessir tveir menn höfðu varanleg áhrif á heimsbyggðina, getur hver og einn haft áhrif á nærumhverfi sitt. Til að hafa áhrif, þarf að taka þátt, leggja sitt af mörkum og láta sig málin varða. Það er það sem ég get gert fyrir Grindavík. 

Þátttakan getur falist í svo mörgu. Hitta vini og kunningja. Fara í heimsókn. Fara á kaffihús. Taka þátt í atvinnulífinu, hvort heldur sem vinnuveitandi eða launþegi. Taka þátt í fjármögnun samfélagsins með greiðslu skatta og annarra gjalda. Þátttaka í skipulögðu félagsstarfi og tómstundum. Að mæta á leiki, í kirkju og sækja viðburði. Þátttaka í skólastarfi og námi barnanna. Vera vakandi fyrir því hvaða þættir stuðla að bættum árangri barnanna. Samvera. Að halda að þeim bókum og öðru fræðsluefni. Vekja forvitni. 

Það er mikilvægt að benda á það sem betur má fara, og enn mikilvægara að taka þátt í að leysa það. Mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum og við sem samfélag virkjum fólk sem á erfitt með þátttöku vegna veikinda, fötlunar eða félagslegrar einangrunar. Enginn getur allt, en allir geta eitthvað. 

Í Grindavík er mikil og sterk hefð fyrir félagastarfsemi. Hér eru fjölmörg félög, bæði gömul og ný, sem skipta samfélagið allt máli. Félagsstarfið er síður en svo á undanhaldi, stofnun skotfélags, karlakórs og sögu- og minjafélags í Grindavík á síðustu 2-3 árum gefur til kynna að enn sé hugur í fólki. Þann 24. nóvember síðastliðinn átti Kvenfélag Grindavíkur 90 ára afmæli og voru nokkrar konur heiðraðar við það tækifæri. Ein þeirra, Birna Óladóttir, fékk sérstaka viðurkenningu fyrir sín störf. Hún hefur frá 14 ára aldri starfað í kvenfélagi og látið sig samfélagið varða. Þátttaka hennar og fórnfýsi er okkur öllum hvatning. Þegar allt kemur til alls þurfum við öll að leggja okkar af mörkum til að gera  Grindavík að því samfélagi sem við viljum byggja.

Róbert Ragnarsson
bæjarstjóri

Greinin birtist fyrst í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar (4. tbl. 2013).


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!