Sigur í fyrsta leik

  • Fréttir
  • 22. mars 2013

Grindvíkingar eru komnir yfir í einvígi sínu gegn Skallagrími í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni Domino's deildarinnar. Grindvíkingar höfðu betur í Röstinni í kvöld, 103-86 í kaflaskiptum leik. Hins vegar sigur Grindvíkinga svo til aldrei i hættu.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn á móti Skallagrími af miklum krafti. Jóhann Árni Ólafsson var sjóðheitur á fyrstu mínútum leiksins og skoraði grimmt. Gestirnir úr Borgarnesi þéttu raðirnar eftir því sem að leið á leikhlutann og náðu að vinna forystuna niður í fimm stig áður en leikhlutinn var úti. Staðan 23-18 eftir fyrsta leikhluta.

Páll Axel Vilbergsson kveikti í gestunum með góðum þristi í upphafi annars leikhluta. Annar þristur fylgdi í kjölfarið frá Agli Egilssyni sem kom gestunum yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 25-27. Sverir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, var allt annað en sáttur og tók leikhlé. Það kveikti í heimamönnum sem tóku öll völd á vellinum. Heimamenn keyrðu upp hraðann í sóknarleiknum og náðu góðri forystu. Staðan 51-35 í hálfleik. Jóhann Árni var góður í fyrri hálfleik með 14 stig fyrir Grindvíkinga en Páll Axel var í sérflokki hjá Skallagrími með 17 stig.

Grinvíkingar sýndu styrk sinn í þriðja leikhluta og hreinlega hlupu yfir Borgnesinga. Grindvíkingar röðuðu niður þristum, sérstaklega frá Samuel Zeglinski, sem var óhæddur við að skjóta. Leikmönnum Skallagríms gekk illa að finna leiðir framhjá sterkri vörn heimamanna. Grindvíkingar náðu einnig að stöðva Pál Axel sem hafði verið funheitur fyrr í leiknum. Grindvíkingar nánast búnir að klára leikinn í þriðja leikhluta 78-56.

Skallagrímur mætti af ótrúlegum krafti í lokaleikhlutann og slógu heimamenn algjörlega út af laginu. Carlos Medlock raðaði niður skotunum og allt í einu var munurinn á liðunum aðeins sjö stig, 85-78, þegar enn voru tæpar fjórar mínútur eftir af leiknum. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, tók þá leikhlé, setti sitt sterkasta lið á völlinn. Það gerði gæfumuninn og fór svo að lokum að heimamenn unnu öruggan sigur í ótrúlega kaflaskiptum leik. Lokatölur 103-86.


Grindavík-Skallagrímur 103-86 (23-18, 28-17, 27-21, 25-30)

Grindavík: Aaron Broussard 27/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 23/5 fráköst, Samuel Zeglinski 23/10 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 22/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 4/4 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Axel Guðmundsson 3/4 fráköst, Ryan Pettinella 1.

Skallagrímur: Carlos Medlock 32, Páll Axel Vilbergsson 26/7 fráköst, Hörður Helgi Hreiðarsson 10/4 fráköst, Orri Jónsson 6, Davíð Ásgeirsson 5, Egill Egilsson 3, Birgir Þór Sverrisson 2, Trausti Eiríksson 2.


Sverrir Þór: Verðum að gera miklu betur

„Þetta var rosalega kaflaskiptur leikur hjá okkur og ég er alls ekkert sáttur með leikinn. Ég er mjög ánægður með sigurinn en það var hrikalegt einbeitingarleysi, trekk í trekk í leiknum. Við verðum að gera miklu betur ef við ætlum að klára þetta einvígi í Borgarnesi," segir Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur.

„Við vorum frábærir inn á milli en það þarf að halda einbeitingu allan leikinn. Þetta er fljótt að fara ef þú ert með eitthvað kæruleysi. Við erum að skora mikið en varnarlega vorum við slakir. Það verðum við að laga."

Grindvíkingar voru með yfir 20 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann og héldu margir að það yrði formsatriði fyrir Grindavík að klára leikinn. Sverrir viðurkennir að kraftur Skallagríms í fjórða leikhluta hafi komið sér á óvart.

„Já, ég verð að viðurkenna það. Flest lið hefðu líklega gefið upp vonina. Við þurfum að eiga virkilega góðan leik á mánudag ef við ætlum að klára einvígið."

Umfjöllun: Vísir.is


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir