Mannauđur sem byggir á jafnrćđi, jákvćđni, ţekkingu, framsćkni og trausti

  • Fréttir
  • 21. mars 2013

Aðalverkefni Grindavíkurbæjar er að sinna fræðslumálum og félagsþjónustu. Alls eru um 700 börn og ungmenni sem starfsmenn Grindavíkurbæjar taka á móti á degi hverjum og aðstoða við að auka þekkingu sína og hæfni.

Á vettvangi félagsþjónustunnar sinna starfsmenn þjónustu við á annað hundrað einstaklinga sem þurfa aðstoð við ýmis verkefni, allt frá þrifum til stuðnings við athafnir dagslegs lífs. Auk þessara meginverkefna sinna starfsmenn Grindavíkurbæjar fjölmörgum öðrum verkefnum, svo sem á höfninni, í þjónustumiðstöðinni, á bæjarskrifstofunni og íþróttamiðstöðinni. Alls eru starfsmenn bæjarins nálægt 200 í um 150 stöðugildum. Launakostnaður á árinu 2011 var um 950 milljónir eða 50% af heildarútgjöldum Grindavíkurbæjar. Það má því ljóst vera að starfsmannamál skipta verulegu máli í starfsemi bæjarins.

Undanfarin tvö ár hefur markvisst verið unnið að því að gera Grindavíkurbæ að betri vinnustað með það að leiðarljósi að því öfluga starfsfólki sem starfar fyrir bæinn líði vel í vinnunni og leggi sig fram um að þjónusta íbúa vel. Haustið 2011 var í fyrsta sinn haldinn sameiginlegur Starfsmannadagur Grindavíkurbæjar þar sem allir starfsmenn komu saman og unnu að markmiðasetningu fyrir starfsemi bæj-arins. Auk þess var rætt um hvað betur mætti fara. Í október 2012 var annar Starfsmanna-dagur Grindavíkurbæjar haldinn og voru vinnuverndarmál og endurmenntun á dagskrá.

Í kjölfar þeirra fjölmörgu ábendinga og tillagna sem starfsmenn hafa lagt fram, hefur farið fram mikil umbótavinna. Margt hefur verið gert vel í gegnum tíðina, en annað þarf að endurskoða eða laga. Hjá Grindavíkurbæ er til staðar starfsmannastefna og jafnréttisáætlun, en komið er að endurskoðun hvoru tveggja. Hafin er vinna við gerð sí- og endurmenntunaráætlunar bæjarins í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þorgerður launafullrúi leiðir þá vinnu ásamt stýrihópi starfsmanna en nánar er fjallað um þetta á blaðsíðu 4. Auk þess er hafin undirbúningur að gerð vinnuverndaráætlunar.

Í upphafi árs var í fyrsta sinn haldinn stjórnendadagur þar sem allir stjórnendur fengu leiðsögn um hlutverk stjórnenda, þjálfun í starfsmannasamtölum og skipulagi. Starfsmannasamtöl eru vettvangur starfsmanna til að koma á framfæri hugmyndum sínum varðandi sitt starf og starfsumhverfi. Allir starfsmenn munu fara í starfsmannaviðtal með sínum næsta yfirmanni fyrir páska.

Starfsmenn hafa ákveðið að hafa jafnræði, jákvæðni, þekkingu, framsækni og traust að leiðarljósi í sínum störfum, sem vonandi endurspeglast í enn betri þjónustu við íbúa.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir