Tveggja metra og feitir fiskar

  • Fréttir
  • 22. október 2012

Túnfiskveiðar Odds Sæmundssonar útgerðarmanns á Stafnesinu fara vel af stað. Á föstudag voru þeir búnir að fá fjóra fallega fiska í tveimur lögnum og búnir að legga línuna í þriðja sinn. Veiðarnar stunda þeir langt suður af landinu, 180 til 200 mílur frá landi. Þetta er fyrstu túnfiskarnir sem íslenskt skip veiðir í áratug eða meira.

 Skipstjóri í þessari veiðferð er Gunnlaugur Ævarsson, en útgerðarmaðurinn er annar stýrirmaður og á dekki. Kvóti Íslands í ár er 25 tonn og er Stafnes með hann allan, en einungis er heimilt að úthluta einu skipi veiðiheimildir í einu. Fjórar útgerðir sóttu um, tvær voru ekki dæmdar hæfar og Stafnesið fékk úthlutunina með hlutkesti.

„Þetta eru tveggja metra langir og feitir fiskar, sem hafa greinilega haft það gott í makrílveislunni hér í sumar," segir Jónína Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Helgu ehf, sem gerir Stafnesið út. „Við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í, ég held að þessi veiði sé ásættanleg í byrjun að minnsta kosti, en kannski verið betra að get byrjað örlítið fyrr."

Bíða með öndina í hálsinum
Hún segir að þeir hafi 7 til 8 daga frá því fyrsti fiskurinn veiðist og þar til hann þarf að fara í flug. Fiskurinn er ísaður um borð og fluttur utan með flugi á uppboðsmarkaðinn í Tókýó. „Við erum búin að semja við Iceland Air um flutninginn til Evrópu og þar tekur annað flugfélag við, en alls tekur flutningurinn um tvo sólarhringa. Fiskurinn má ekki vera meira en tíu daga gamall þegar hann kemur á markaðinn. Mér skilst að Japanarnir bíði með öndina í hálsinum eftir þessum fiskum, sem vonandi verða fleiri. Þeir eru mest að fá frystan túnfisk og túnfisk úr eldi, en stórir feitir villtir fiskar eru eftirsóttastir."

Sérstök líkklæði fyrir fiskinn
Hafið þið einhverjar hugmyndir um hvaða verð gæti fengist fyrir hvern fisk á markaðnum ytra?
„Nei, við vitum auðvitað ekkert um það fyrr en á markaðinn kemur. Þetta er uppboðsmarkaður og verðið fer eftir framboði og eftirspurn og að sjálfsögðu eftir gæðum fisksins. Þetta er dýr fiskur og verð á einstökum fiski getur nálgast allt að milljón króna ef það fer saman að eftirspurn er mikil og gæðin mikil. Það kostar líka mikið að gera út á túnfiskinn. Við þurfum að sækja langt og olían er dýr. Smokkfiskurinn sem notaður er í beitu er enn dýrari. Við kaupum hann sérpakkaðan í gulli slegnum öskjum frá Argentínu, enda er hann ætlaður til manneldis. Svo höfum við látið smíða sérstakar öskjur með eins konar líklæðum utan um fiskinn, sem eru sérstakar kælimottur og loks eru öskjurnar fyllar af ís. Mjög mikilvægt er að halda kælingu alla leið á markað og fylgst er með hitastiginu alla leið og bætt við ís ef þörf krefur í fluginu.
Japanir utan lögsögu

Þetta er mjög skemmtilegur og spennandi veiðiskapur, svona eins og 50 föld laxveiði," segir Jónína. Gera má ráð fyrir að Stafnesið verði að veiðum þar til í dag, mánudag. Mikið hefur verið af japönskum túnfiskveiðiskipum rétt utan við lögsöguna og hafa þau verið að fiska vel. Þau eru með 60 mílna langa línu og frysta fiskinn um borð og getur úthaldið hjá þeim því verið miklu lengra en hjá skipum eins og Stafnesinu, sem ísa aflann og selja ferskan á uppboðsmarkaðnum.

Frétt og mynd: Útvegsblaðið.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!