Fréttir af skólastarfinu

  • Fréttir
  • 21. október 2012

Eftirfarandi grein birtist í Víkurfréttum síðasta fimmtudag: Í Grunnskóla Grindavíkur viljum við: skapa þannig umhverfi, í samráði við foreldra, að öllum líði vel og allir læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Að frá skólanum fari einstaklingar sem tilbúnir eru til þess að takast á við eigin framtíð.

Skólastarf hefur farið vel af stað í Grindavík í haust. Starfsmenn, forráðamenn og nemendur skólans sameinast í að skapa samfélag þar sem hver einstaklingur fær notið sín, geti aukið færni sína og bæti við sig þekkingu frá degi til dags. Mörg verkefni líta dagsins ljós í viku hverri og verk nemenda prýða umhverfið. Skólinn okkar iðar af lífi og starfsánægju. 

Á þessu skólaári vinnur starfsfólk skólans að nokkrum þróunarverkefnum. Við vinnum að því að styrkja stoðir Uppbyggingarstefnunnar innan skólans. Uppbyggingarstefnan (restitution) er stefna sem skólinn hefur innleitt í starf sitt og miðar að því að kenna börnum og unglingum að taka ábyrgð á orðum sínum og gjörðum og læra af mistökum sem gerð eru. Í ágúst fengum við fyrirlesara frá Winnipeg í Kanada til þess að hnykkja á vinnubrögðum og hafa kennarar nú í upphafi skólaárs unnið markvisst með nemendum að uppbyggingu í skólastarfinu. Árlega koma nýir starfsmenn til starfa í skólanum og er mikilvægt að allir tileinki sér starfshætti uppbyggingarstefnunnar. Í undirbúningi er að halda grunnnámskeið fyrir starfsmenn skólans og aðra starfsmenn Grindavíkurbæjar sem vinna með börnum og hafa ekki áður farið á slíkt námskeið. Umsjón með verkefninu hefur Valdís Kristinsdóttir grunnskólakennari.

Grindavíkurbær er þróunarsveitarfélag í verkefni um endurskoðun skólanámskrár og aðlögun hennar að nýrri menntastefnu. Verkefnið heitir Þróunarsveitarfélag - Ný hugsun í átt að betri framtíð. Um er að ræða þriggja ára samstarfsverkefni sem á að skila okkur aukinni þekkingu á grunnþáttum menntunar og sameiginlegri sýn. Vinnan fer fram í samstarfi allra skóla sveitarfélagsins og stýrir Ingibjörg María Guðmundsdóttir skólasálfræðingur henni. Leikskólar, grunnskóli, framhaldsskóli og tónlistarskóli vinna saman að grunnstefnumótun og útfærslum á starfi skólanna. Einnig verður leitað til íbúa Grindavíkurbæjar með þátttöku í málþingum og borgarafundum. Við leggjum áherslu á að læra saman, að skólarnir kynni hver fyrir öðrum námskrárvinnuna og styrkja þannig samstarf og samráð milli allra skóla í Grindavík. Með þessu móti ætlum við að móta saman nýja menntastefnu fyrir Grindavíkurbæ, efla og styrkja kennara í starfi og skapa um leið jákvætt skólastarf með lýðræðislegum vinnubrögðum í anda nýrrar menntastefnu.
Í menntastefnu okkar Íslendinga er áhersla á lýðræði og mannréttindi. Ný aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir því að „börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði". Í Grunnskóla Grindavíkur eru að fara af stað tvö verkefni sem tengja má beint við þennan grunnþátt. Annars vegar er verkefnið Innleiðing bekkjarfunda í skólastarfi, en markmið þess er að þjálfa nemendur í að koma hugsunum sínum og skoðunum í orð til að efla samskiptafærni nemenda og efla lýðræði í bekkjum og efla þannig lýðræðisleg vinnubrögð.

Hins vegar höfum við stofnað nemendafulltrúaráð í skólanum. Hugmyndin að baki ráðinu er að auka nemendalýðræði og gefa nemendum kost á að taka þátt í ákvarðanatökum og þannig að bæta skólabrag Grunnskóla Grindavíkur. Nemendafulltrúaráð er skipað nemendum úr 2. -10. bekk. Hver bekkur hefur einn fulltrúa í ráðinu og annan til vara. Ráðið fundar 5 sinnum á skólaárinu með Guðrúnu Ingu Bragadóttur námsráðgjafa sem heldur utan um verkefnið.

Auk þessara verkefna má benda á verkefni sem auka á fjölbreytni í kennslustofunni svo sem Fjölsmiðjuna, valgrein fyrir nemendur í elstu bekkjum skólans þar sem lögð er áhersla á verklega þætti í skólastarfinu. Orð af orði, lestur til náms er verkefni með áherslu á að auka orðaforða, lesskilning og námsárangur nemenda. Áhersla er lögð á samvinnu og samvirkar kennsluaðferðir. Einnig er verið að vinna heildstæða lestrarstefnu fyrir alla árganga skólans og endurskoðun stærðfræðikennslunnar á elsta stigi stendur nú yfir.

Í Grunnskóla Grindavíkur höfum við það hugfast að mikilvægt er í skólastarfi að höfða til áhugasviðs nemenda, huga að virkni þeirra í kennslustofunni og veita þeim tækifæri til að taka ábyrgð á eigin námi.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir