Áfram fari mikill tími og orka í frćđslumálin

  • Fréttir
  • 28. september 2012

Eftirfarandi grein birtist eftir bæjarstjóra í Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar, sem kom út á dögunum: „Skólabyrjun ber ávallt í skauti sér miklar væntingar og spennu um hvernig veturinn muni þróast. Á það jafnt við um nemendur og starfsfólk. Á því er engin undantekning hér í Grindavík í ár, enda miklar breytingar orðið frá síðasta skólaaári og mörg verkefni í vinnslu.

Síðasta skólaár var viðburðaríkt og alls ekki auðvelt. Skipt var um skólastjóra grunnskólans sem leiddi af sér talsvert rót á skólastarfinu, unnið var með mörg erfið mál og mennta- og menningarmálaráðuneytið framkvæmdi úttekt á skólastarfinu. Pálmi Ingólfsson tók við stjórn skólans í þessum ólgusjó og leiddi starfið af mikilli röggsemi ásamt öðrum stjórnendum skólans. Það er ekki auðvelt að bera ábyrgð stjórnanda við slíkar aðstæður og umræðan ekki alltaf sanngjörn. Að mínu mati stóðu þau sig afar vel og eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag.

Á vettvangi bæjarstjórnar og stjórnenda bæjarins fór mikill tími í umræður og ákvarðanir sem varða fræðslumál. Ég vona að svo verði áfram, enda eru fræðslumál langstærsti málaflokkur bæjarins. Undir hatti fræðslumála eru 119 af um 180 starfsmönnum Grindavíkurbæjar. Á hverjum degi erum við að sinna fræðslu og uppeldi um 650 nemenda í leik-og grunnskóla og um 65% af skatttekjum bæjarins fara til verkefna á sviði fræðslumála. Nú eru fjölmörg umbótaverkefni fyrirliggjandi sem þurfa að koma til framkvæmda.

Úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytis kom með margar góðar ábendingar um það sem betur má fara í okkar skólaumhverfi. Sumt af því þóttumst við vita, en auk þess komu fram ábendingar sem gestsaugað eitt gat séð. Í kjölfar úttektarinnar skipaði bæjarstjórn vinnuhóp til að fara yfir tillögurnar og vinna umbótaáætlanir. Þær voru unnar á vorönn í góðu samstarfi kjörinna fulltrúa, félags- og skólaþjónustu, skólastjórnenda, kennara og fulltrúa foreldra. Þær eru birtar á vef skólans og hvet ég íbúa og ekki síst foreldra til að kynna sér þær vel og halda okkur á tánum með eftirfylgni. Í þessu tölublaði Járngerðar er einnig fjallað ítarlega um verkefnin.

Hryggjarsúlan í umbótastarfinu er verkefnið Þróunarsveitarfélag - Ný hugsun í átt að betri framtíð. Eitt af markmiðum verkefnisins er að allir skólar í Grindavík, leikskólar, grunnskóli, tónlistarskóli og Fisktækniskólinn aðlagi skólanámskrár sínar í samræmi við nýjar áherslur í aðalnáms-skrám. Skólanámsskrá verður endurskoðuð samhliða vinnu við skólastefnu sveitarfélagsins. Félags- og skólaþjónusta Grindavíkur hefur fengið styrk úr Sprotasjóði í verkefnið.

Félags- og skólaþjónustan hefur eflst í kjölfar breytinga sem gerðar voru á skipulagi hennar fyrir um rúmu ári síðan. Í teyminu er mjög öflugt fólk með menntun og reynslu á sviði lögfræði, sálfræði, félagsráðgjafar, kennslu í leik- og grunnskóla, skólastjórnunar og sérkennslu.

Búið er að ráða nýja stjórnendur við grunnskólann. Halldóra Kristín Magnúsdóttir fyrrverandi aðstoðarskólastjóri í Akurskóla og Hvolsskóla, hefur verið ráðinn skólastjóri en hún hefur mikla reynslu af skólaþróun. Hefur m.a. annað unnið til íslensku menntaverðlaunanna fyrir verkefni í Hvolsskóla. Henni til aðstoðar hefur verið ráðin Guðbjörg Málfríður Sveinsdóttir sem hefur mikla reynslu af rekstri og stjórnun grunnskóla, en hún var áður rekstrarstjóri og staðgengill fræðslustjóra hjá Reykjanesbæ. Að öðru leyti eru ekki miklar breytingar á mannahaldi. Allir kennarar grunnskólans er með kennsluréttindi og flestir með mikla reynslu. Starfsfólkið er komið til starfa fullt af áhuga og krafti til að halda áfram góðu starfi.
Skólinn hefur búið við góðan fjárhagsramma og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Umgjörðin er því sterk. Verkefnið næstu misseri og ár er að ná enn betri árangri og það gerum við með nánara samstarfi. Samstarfi bæjarstjórnar, félags- og fræðsluþjónustu, starfsmanna skólans, nemenda og síðast en ekki síst foreldra. Foreldrar þurfa að koma inn í skólastarfið af sama krafti og einkennir íþróttastarfið. Einn veigamesti þáttur umbótaáætlunarinnar er að efla þessi samskipti.

Mikill tími og orka hefur farið í skólamálin undanfarin 2 ár. Vonandi fer jafn mikill tími og orka í málaflokkinn næstu árin, þ.e. jákvæð orka. Það er nauðsynlegt til að umbæturnar gangi vel og við nýtum þau tækifæri sem búa hér í Grindavík.

Róbert Ragnarsson
bæjarstjóri"

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!