Útivist

 • 17. mars 2009

Ýmsir möguleikar eru til útivistar í Grindavík og nágrenni. Þar eru ýmsar göngu- og útreiðarleiðir og margt forvitnilegt að sjá.

Reykjavegur:
Gönguleiðin Reykjavegur skiptist í nokkra áfanga, sem auðvelt er að bæta við. Þessir áfangar hefjast við Reykjanesvita og enda á Nesjavöllum eða bæta við leiðinni til Þingvalla og lengra ef vill. Það er hægt að ganga hvern áfanga á einum degi og láta sækja sig að honum loknum eða láta fyrirberast í tjaldi eða undir þaki, þar sem því verður við komið.

Stungið er upp á eftirfarandi áföngum:
1. Reykjanesviti - Þorbjörn (Bláa lónið) 19 km
2. Þorbjörn - Leirdalur 13 km
3. Leirdalur - Djúpavatn 14 km
4. Djúpavatn - Kaldársel 18 km
5. Kaldársel - Bláfjöll 16 km
6. Bláfjöll - Hamragil 20 km
7. Hamragil - Nesjavellir 14 km

Víðast eru leiðirnar merktar með bláum stikum og bent er á afleiðir til áhugaverðra staða eða nærliggjandi bæja. Leiðirnar liggja um mólendi, mosagróin hraun, sand og mela. Þetta mun vera ein lengsta merkta gönguleið landsins og á áfangastöðum á að vera aðgangur að fersku vatni og salerni a.m.k. Þó verður að gæta þess, að við Höfða, skammt frá Fagradalsfjalli er engin slík aðstaða. Þar verður að nota neyzluvatn, sem fólk ber á sér sjálft. Komin er út kortabókin Reykjavegur með nánari leiðarlýsingu. Hún fæst á flestum stöðum, sem selja ferðatengt efni. Göngubúnaður á þessari leið þarf að vera góður og göngufólk fylgir vitaskuld leiðbeiningum Náttúruverndarráðs út í yztu æsar.

Skógfellavegur:
Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Skógfellavegur er gömul leið úr Vogum til Grindavíkur sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur.

Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfaraleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.

Hægt er að aka að lægð sunnan við Voga þar sem gangan hefst, þar er tréskilti er á stendur Skógafellavegur, 16 km sem mun vera vegalengdin til Grindavíkur. Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum. Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og næsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var á síðar.

Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að komast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuði eftir slysið. Við litum ofan í gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæi til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum. Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið vel áfram, enda auðveld og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógfell er ekki hátt, aðeins 85 m y. s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellanna er þétt röð varða.

Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfellið, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn, utan eins þátttakanda sem raunar gekk á öll fell sem urðu á vegi okkar og dásamaði hann mjög útsýnið. Þegar suður fyrir Stóra-Skógfell kom blasti við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. Á þessum slóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi göngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls, rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga. Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því var kærkomin endapunktur á góðri gönguferð. Síðari hluti leiðarinnar sem liggur í suður meðfram Sundhnúkagígaröðinni bíður betri tíma og einnig væri verðugt verkefni að fylgja allri þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en slíkt mætti gera í nokkrum áföngum.

Reykjanes - Þorbjarnarfell:
Ef Reykjavegurinn er farinn frá vestri til austurs hefst gangan við Reykjanesvita. Þar eru nokkur kennileiti sem vert er að minnast á. Vitinn stendur á Bæjarfelli. Gott útsýni er af fellinu yfir nágrennið. Í vestri blasa við Valahnúkar og Eldey úti í hafi. Í suðri Vatnsfell og Reykjanestá en dyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga í austri. Norðar í hrauninu er Sýrfell. Á Valahnúk var fyrsti viti á Íslandi, reistur árið 1878 en hann hrundi í jarðskjálfta og undirstaða hans er nú horfin þar sem sjórinn brýtur úr hnúknum. Austan Bæjarfells og norðan Skálafells er mikið jarðhitasvæði með gufu- og leirhverum og Gunnuhver sennilega þeirra þekktastur enda þjóðsagan um Gunnu sem var komið fyrir í hvernum, vel þekkt.

Frá Valahnúk er ströndinni fylgt norður á Önglabrjótsnef og áfram norður Stampahraun og yfir gossprunguna sem Stamparnir eru á og hraunið tekur nafn sitt af. Talið er að Stampahraun yngra hafi runnið á 14. öld. Frá Kistubergi er ströndinni fylgt norður í Stóru-Sandvík. Aðeins austar í hrauninu er gömul bílaslóð sem nú er lokuð fyrir bílaumferð, sem einnig er hægt að ganga eftir ef fólk vill hafa sléttara undir fæti.

Stóra-Sandvík er allstór vík með sandfjöru og skeljum. Austur af víkinni er tjörn sem vert er að gefa gaum. Í austur frá henni er lægð í hraunið sem leiðin liggur um. Þarna þarf að fara yfir bílveginn og stefnan tekin á Haug, sem er lítið eldvarp sunnan Haugsvörðugjár. Þar er komið inn á Prestastíg (Hafnarleið) sem er gömul leið á milli Húsatófta í Grindavík og Kalmannstjarnar. Þessi leið er greinileg og vel vörðuð. Henni er fylgt sunnan Sandfellshæðar með jaðri Eldvarpahrauns á kafla en síðan inn í hraunið hjá Rauðhól. Prestastígurinn liggur þaðan til suðurs niður að Húsatóftum en Reykjavegurinn beygir hins vegar norður með Eldvarpasprungunni að austan, að borholu Hitaveitu Suðurnesja sem þar er. Á toppi Sandfellshæðar er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur - norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Aðeins um það bil 1 km austur/suðaustur af þessum helli eru húsarústir í Sundvörðuhrauni sem vert er að leggja leið sína að. Þær eru skammt vestur af Sundvörðunni, vel faldar í dálítilli hraunkvos. Þetta eru 10 tóftir, flestar vestanundir hraunbrún en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð.

Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Frá Eldvörpum liggur leiðin austur yfir Sundvörðuhraun. Fljótlega er farið yfir Árnastíg, sem er vörðuð leið á milli Húsatófta í Grindavík og Njarðvíkurfitja. Þegar komið er nokkuð austur í hraunið er farið inn á Skipstíg, sem liggur í átt til Grindavíkur, að skála undir Lágafelli suðvestan við Þorbjarnarfell. Þessi dagleið er um það bil 20 km og hækkun sáralítil.


Þorbjarnarfell - Leirdalur:
Frá náttstað undir Lágafelli liggur leiðin norður með Þorbjarnarfelli að vestan, norður fyrir það og austur um Baðsvelli. Á þessari leið er gott að rifja upp þjóðsöguna um útilegumennina 15 sem sagt er að hafi hafst við í Þjófagjá og stolið fé Grindvíkinga. Þjófagjá er sigdalur eða sprungur sem kljúfa Þorbjarnarfell að endilöngu. Baðsvellir eru grasi grónir vellir norður af Þorbjarnarfelli þar sem gróðursett hafa verið tré á undanförnum árum. Skammt norður af Baðsvöllum er orkuver Hitaveitu Suðurnesja úti í Illahrauni, kennt við Svartsengi. Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld. Varla er hægt að fara hjá Svartsengi án þess að fara í bað í Bláa lóninu.

Frá Baðsvöllum liggur leiðin upp að heitavatnsgeyminum í skarðinu á milli Þorbjarnarfells og Hagafells. Þegar þangað er komið, er beygt í austur, farið yfir Grindavíkurveginn og upp á Hagafell. Leiðin liggur austur með hamravegg, sem er misgengi sem klýfur fellið, en undir hamraveggnum eru Gálgaklettar. Af hæðinni opnast útsýni í austur. Svartsengisfell er nú á vinstri hönd og Sundhnúkur beint framundan. Sunnan hans er Vatnsheiðin og austur af henni blasir Fiskidalsfjall við. Héðan liggur leiðin yfir á Vatnsheiðina sunnan Sundhnúks. Efst á henni er gígur sem vert er að skoða áður en haldið er austur af henni niður í Beinavarðahraun. Þar liggur leiðin á milli hrauns og hlíðar, austur í krikann vestan undir Hrafnshlíð. Hér er ákaflega fallegt og vel þess virði að staldra við í hraungjótu áður en haldið er áfram norður með Hrafnshlíðinni. Fljótlega lækkar hlíðin og aftur er beygt í austur og gengið yfir Borgarhraun með stefnu á Borgarfjall, sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Vestan í Vatnsheiðinni, sunnan Sundhnúks, er farið yfir Skógfellaveg sem var gömul alfaraleið á milli Grindavíkur og Voga og Vatnsleysustrandar. Farið er yfir Sandakraveg, sem lá á milli Ísólfsskála og Stapa austur við Borgafjall, en talið er að hann hafi komið inn á Skógfellaleiðina norðan við Stóra-Skógfell. Hér kunna þó nöfn á þessum leiðum að hafa breyst þar sem heimildir eru misvísandi. Fyrir austan Borgarhraun breytir landið um svip, við taka blásnar hlíðar og melar með Slögu og Skálamælifell á hægri hönd en Langahrygg, Lyngbrekkur og síðar Einihlíðar á þá vinstri. Ekki er úr vegi að staldra við hjá Drykkjarsteini en sagt er að rigningarvatn, sem safnast í holu í honum, þrjóti aldrei. Austan Einihlíða er misgengi og vesturbarmur þess nefnist Méltunnuklif og eftir því er gengið að skála í Leirdal. Hér er ekkert drykkjarvatn svo hugsa þarf fyrir því. Þessi dagleið er um það bil 14 km og liggur hæst í rúmlega 120 m y. s. á Vatnsheiði.

Leirdalur - Djúpavatn:
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Leiðin norður með Höfða liggur þar á milli hrauns og hlíðar. Yfir hraunhaftið sunnan Sandfells er greiðfær leið og áfram norður með því að austan. Þegar komið er spölkorn norður með fellinu er beygt til hægri yfir hraunið í átt að Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem á þessum stað heitir Skólahraun. Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar en gatan kemur að Núpshlíðarhálsi, er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tótt sem er minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti.

Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli. Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.

Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls úti í hrauninu er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.

Frægastur er Hverinn eini í hrauninu sunnan Oddafells. Hann var áður vellandi leirhver en lætur nú lítið yfir sér. Hér liggur leiðin upp hæðardrög meðfram gígaröðinni sem m.a. Afstapahraun er runnið úr og upp á Núpshlíðarháls (Vesturháls). Í einum þessara gíga, norður undir Grænudyngju, er Sogasel en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Nyrsti hluti hálsins heitir Trölladyngja, 402 m.y.s. Milli hennar og Grænavatnseggja opnast lægð í hálsinn sem heitir Sog. Þar er mikil ummyndun eftir jarðhita og litadýrð mikil. Lækur rennur norður Sog sem getur þrotið í þurrkatíð. Á brúnunum vestan við þetta skarð liggur leiðin þvert yfir Núpshlíðarháls og niður á Lækjarvelli norðan Djúpavatns, sem er allmikið vatn í kvos í Móhálsadal austan undir Núpshlíðarhálsi. Á leiðinni yfir hálsinn er farið fram hjá Spákonuvatni, sem er í gömlum gíg. Á Lækjarvöllum er skáli og þar er einnig gott að tjalda. Nægilegt drykkjarvatn er í læknum sem rennur um vellina og þeir taka nafn af. Þessi dagleið er stutt eða um það bil 14 km og mesta hækkun tæplega 300 m.y.s. þar sem farið er yfir Núpshlíðarháls undir Grænavatnseggjum.

Sjá fleiri gönguleiðir á www.utivist.is  og www.ferlir.is

Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR

Nýjustu fréttir 11

Hátíđlegt í jólamat

 • Grunnskólafréttir
 • 14. desember 2018

Jólalegt í morgunsöng

 • Grunnskólafréttir
 • 13. desember 2018

Undanúrslitum spurningakeppninnar lokiđ

 • Grunnskólafréttir
 • 11. desember 2018

Auglýst eftir dagforeldri

 • Fréttir
 • 11. desember 2018

Nemendur tónlistarskólans komu fram viđ tendrun jólatrés

 • Tónlistaskólafréttir
 • 10. desember 2018

Snjókarlagerđ í núvitund

 • Grunnskólafréttir
 • 7. desember 2018

Vilhjálmur Árnason rćddi orkumál viđ nemendur

 • Grunnskólafréttir
 • 6. desember 2018

Jólatónleikar kórs Grindavíkurkirkju

 • Fréttir
 • 5. desember 2018