Slökkviliđ

 

 

 

 

 

 

 

Slökkvilið Grindavíkur
Hafnargata 13
Sími: 426-8380
slokkvilid@grindavik.is
Facebook síða slökkviliðsins
Slökkviliðsstjóri: Ásmundur Jónsson.

Slökkvilið Grindavíkurbæjar sinnir slökkvistörfum í Grindavík samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000 23. maí. Einnig sinnir það aðstoð við önnur slökkvilið í landinu þegar eftir því er leitað, ásamt því að sinna eldum í skipum við land og á hafi úti þegar svo ber við. Slökkvistörfin eru margvísleg og geta verið allt frá litlum bruna í ruslatunnu, yfir í stórbruna.

Slökkvistarf er mjög krefjandi starf bæði andlega og líkamlega, þess vegna eru gerðar miklar kröfur um styrk, andlegt jafnvægi og þekkingu til slökkviliðsmanna.

Verkefnin eru misjöfn, bæði lítil og stór en ávallt ýtrasta öryggis gætt sama hvernig vettvangurinn er því eldur er alltaf varasamur hver sem stærð hans er. 

Saga slökkviliðsins:

Í upphafi þegar engin tæki eða tól voru til slökkvistarfa þá hjálpuðust allir við slökkvistörf og lítið eða ekkert skipulag var á aðgerðum. En ekki dugði það til lengdar og eftir því sem samfélagið óx þá kallaði það á mannskap og verkfæri til slökkvistarfa.

Segja má að fyrsta verkfærið sem hreppurinn eignaðist var handknúin slökkvidæla sem var knúin fjórum mönnum ásamt fjölda manns til að bera vatn í dæluna í fötum. Ekki er vitað til þess að dælan hafi verið notuð til slökkvistarfa en vitað er að föturnar sem fylgdu dælunni komu að góðum notum í steypuvinnu í þágu hreppsins. Upp úr 1955 - 1957 var keypt bensín dæla sem í daglegu tali var kölluð rauða dælan.
Vilbergur Aðalgeirsson hafði umsjón með dælunni í upphafi en árið 1957 hóf Jón Ágúst Jónsson störf hjá hreppnum sem verkstjóri og jafnframt því hafði hann umsjón með slökkvibúnaði. Fyrstu skráðu heimildirnar sem eru til um slökkviliðið eru frá Jóni komnar og mun hann líklega hafa verið fyrsti slökkvistjóri hreppsins. Starfaði hann sem slökkvistjóri í samfellt 25 ár.

Eins og fyrr segir starfaði Jón Ágúst Jónsson sem slökkvistjóri til ársins 1972 en þá tekur við Magnús Ingólfsson og starfar til ársins 1987.

Þorkell Guðmundsson tekur til starfa sem slökkvistjóri 1987 og starfar til ársins 1995.

Ásmundur Jónsson tekur við af Þorkeli og er enn að störfum.

Fyrsti slökkvibíllinn var af Bedford gerð árgerð 1960 en hann kom til Grindavíkur 1971 og var í þjónustu liðsins til 1983. Það er skemmst frá því að segja að ekkert húsnæði var til fyrir bílinn fyrsta árið og stóð þar af leiðandi utan dyra hjá Jóni við Ártún.

Upp úr 1975 kemur Benz tank bíll 8000 lítra tank en mikil þörf var á tankbíl á þessum árum vegna lélegs dreifikerfis vatnsveitunnar. Hann var fenginn frá olíufélaginu skeljungi að tilstuðlan Elvars Jónssonar. Dæla var sett aftan á hann og var það verk unnið af einum vara slökkviliðsstjóra Jóni Nikolaisyni. Benzinn var seldur 1988 austur á Bakkafjörð. En í staðinn fyrir hann kemur annar tankbíll af Bedford gerð árgerð 1983 og kom hann frá olíufélagi ekki vitað hvaða en hann er til ársins 1997 en í bílinn var sett Zigler dæla sem var knúinn af VW vél 1200ltrn en það var mikil bylting að fá þessa dælu í staðinn fyrir gömlu dælurnar.

Árið 1978 fáum við Nallan af flugvellinum og fyrir tilstuðlan Magnúsar Ingólfssonar þáverandi slökkviliðsstjóra og tekin úr notkun 1998 og var búin að þjóna okkur í 20 ár. Fyrstu árin var bíllinn geymdur í húsnæði F & L vegna húsnæðisskorts hjá slökkviliðinu.

1987 fáum við annan bíl af flugvellinum sem var Dodge 1974 og var hann búin léttvatni og halon kerfi.og var hann fengin til slökkviliðsins af þáverandi slökkviliðstjóra Þorkeli Guðmundssyni og var í notkun til ársins 2003. Árið 1995 var keyptur Ford og er enn í notkun til manna og tækjaflutninga.

1997 er fjárfest í MAN Vörubíl og settur á hann tankur og dæla af slökkviliðsmönnum.

Eins og bíllinn stendur í dag þá er hann hannaður, lagfærður og smíðaður af slökkviliðsmönnum en verkið tók fjóra til fimm mánuði.

Árið 1997 er Iveco slökkvibíll árgerð 1984 keyptur til liðsins frá Þýskalandi en óhætt er að segja að þáttaskil verði í starfi slökkviliðsins með tilkomu bílsins. Bíllinn er búinn háþrýsti búnaði, loftpúðum, rafstöð, reykköfunartækjum og klippubúnaði. Bíllinn er búinn 2800 lítra Rósenbauer dælu há og lágþrýst með tveimur slöngukeflum. Ljósamastrið á bílnum er 5 metrar og 2 x 500 w. Tveir eiturefnabúningar fékk slökkviliðið að gjöf frá F & L og Fiskanesi. Eins og sagan segir okkur þá hafa menn verið mjög nægju samir á búnað.

Fyrra húsnæði slökkviliðsins var að Skólabraut líklega frá árinu 1957 en þar hafði jafnframt hreppurinn aðstöðu fyrir áhaldahús. En árið 1989 flutti slökkviliðið í núverandi húsnæði.

Mikil framför hefur verið í húsnæði, reykköfunartækjum, hlífðarfatnaði, fjarskiptum, og tækjum slökkviliðsins og ekki síst menntun og kunnáttu slökkviliðsmanna og hafa menn fórnað miklum tíma í það.

Útkalls tæki koma 1987 og eru enn í notkun. Allt frá fyrstu tíð höfum við haft ákaflega gott samstarf við nágrannaslökkviliðin og ekki síst að öðrum ólöstuðum slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli en samkvæmt samtölum við eldri menn að þá er þeim mjög hlítt til Vallarins en þangað hefur oft verið leitað til þjálfunar og bílakaupa.

Ekki má gleyma fórnfúsu starfi slökkviliðsmanna sem hafa starfað ötullega við forvarnarstarf meðal bæjarbúa. Síðustu ár hafa slökkviliðsmenn haft opið hús í slökkvistöðinni í desember mánuði en fyrir nokkrum árum var farið í mikið átak og gengið í hús og fest upp reykskynjurum og slökkvitækjum og fengum við frábærar móttökur frá bæjarbúum.

Nýr slökkvibíll 2009:

Óhætt er að segja að bylting hafi átt sér stað hjá Slökkviliði Grindavíkur eftir að nýr slökkvibíll var tekinn í gagnið með formlegum hætti í byrjun mars 2009 en bíllinn er líklega sá fullkomnasti á landinu. Félag Slökkviliðsmanna í Grindavík var í sannkölluðu hátíðarskapi í tilefni vígsludagsins og gerði sér lítið fyrir og gaf Grindavíkurbæ manna- og tækjabíl, bænum að kostnaðarlausu!

Vígsluathöfnin fór framvið hátíðlega athöfn. Ásmundur Jónsson slökkviliðsstjóri og Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri fluttu ávörp í tilefni dagsins. Fram kom í máli Ásmundar að bíllinn er af gerðinni Scania P 380 og er með tvöföldu húsi af gerðinni CP 31, með sæti fyrir 7 slökkviliðsmenn. Fimm sæti eru sérútbúin með reykköfunartækjum í sætisbaki. Þessi útfærsla á yfirbyggingu frá Scania er það fyrsta sinnar tegundar sem flutt er til landsins til notkunar í slökkvibíl. Yfirbygging bílsins er smíðuð hjá Sigurjóni Magnússyni á Ólafsfirði og er úr trefjaplasti og á að vera viðhaldsfrí. Ásmundur afhenti Jónu Kristínu lyklana að slökkvibílnum en bæjarstjórinn afhenti Ásmundi þá að nýju enda væru þeir best geymdir þar.

En síðan var komið að óvæntri uppákomu. Í sal slökkviliðsins við vígsluathöfnina var einhver stærsti pakki sem um getur. Félagar í slökkviliðinu rifu utan af honum og í ljós kom manna- og tækjabíll sem Félag Slökkviliðsmanna í Grindavík flutti til landsins og gaf Grindavíkurbæ. Bíllinn er af gerðinni Mercedes Benz 508, árgerð 1981 en ekinn aðeins 20 þúsund km. og í algjöru toppstandi. Bíllinn var fluttur frá Þýskalandi og í honum er geymdur allur hugsanlegur búnaður sem kemur að góðum notum við útköll eins og rafmagns- og bensíndælur, vatnssugur og fleira.

Grindavík.is fótur