Félög og samtök

 • 17. mars 2009

Ýmis félög og samtök eru starfrækt í Grindavík. Þeir sem vilja koma upplýsingum á framfæri hér á heimasíðunni eru beðnir að senda þær á heimasidan@grindavik.is

Lionsklúbbur Grindavíkur
Var stofnaður 16. febrúar 1965 að frumkvæði Lions í Njarðvík. Fundað er fyrst og þriðja hvern fimmtudag hvers mánaðar í Salthúsinu kl. 19.30. Félagar eru 30. Markmið Lionsklúbba er að vekja og efla anda skilnings meðal þjóða heims og að hvetja félagslynda menn og konur til að þjóna byggðalagi sínu án persónulegs ávinnings og hvetja til dugnaðar og eflingar siðgæðis í viðskiptum, iðnaði, opinberri starfssemi og einkarekstri.

Heimasíða: http://www.lklgrindavik.com/index.htm

 

 

Slysavarnadeildin Þórkatla
Var stofnuð 12. janúar 1977. Í Þórkötlu eru um 150 konur. Þórkötlur hafa safnað miklum peningum í gegnum tíðina og hafa þeir farið í ýmis góð málefni tengdum slysavörnum eins og neðansjávarmyndavélum fyrir sundlaugina með Kvenfélaginu en slík öryggistæki eru nauðsynleg. Einnig gaf kvennadeildin sundlaug Grindavíkur endurlífgunartæki í tilefni af 10 ára afmæli sundlaugarinnar. Undanfarin ár hefur Þórkatla sent 17 ára unglingum kort sem slysavarnarfélagið hefur látið búa til með myndum af bílum í klessu og slösuðu fólki. Á kortið hefur verið skrifað „Keyrðu varlega, okkur þykir vænt um þig". Einnig höfur deildin sent 67 ára og eldri endurskinsmerki, framkvæmt bílbeltakönnun fyrir utan leikskólana og á Grindavíkurveginum.

Heimasíða: http://svd-thorkatla.blogcentral.is/

Björgunarsveitin Þorbjörn
Var stofnuð 1947, í útkallsveit eru um 30 manns. Sveitin er vel tækjum til sjós og lands, þar ber helst að nefna björgunarskipið Odd V. Gíslason sem var vígt 7. janúar 2008. Þetta er fjórða björgunarskipið með þessu nafni. Nýi Oddur er útbúinn með nýjustu og fullkomnustu siglingatækjum og sjúkrabúnaði sem völ er á og er hann í raun eins og fljótandi sjúkrabíll. Báturinn er m.a. útbúinn súrefnisþjöppu sem gerir súrefniskúta óþarfa við súrefnisgjafir í sjúkraflutningum, en súrefnisþjappan var gjöf frá K-MATT ehf. í Reykjanesbæ. Einnig er í bátnum Flir hitamyndavél sem gerir leit og siglingu mun auðveldari við erfiðar aðstæður.
Þorbjörn hefur unnið mörg þrekvirki í gegnum tíðina og bjargað mörgum úr sjávarháska við erfiðar aðstæður. Íslendingar búa við margvísilegar ógnir og ófáir hafa týnt lífi af völdum eldgosa, snjóflóða, jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara. Björgunarsveitin Þorbjörg hefur byggt upp þekkingu og reynslu til þess að geta brugðist skjótt við öllum þeim hættum sem að Grindavík steðja og ógnað geta sæfarendum og ferðafólki. Öflugur tækjakostur, markvisst þjálfunar- og fræðslustarf ásamt skilvirku stjórnkerfi lands- og svæðisstjórna björgunarsveita tryggir skjót viðbrögð við vá og fagleg vinnubrögð á vettvangi.

Heimasíða: www.thorbjorn.is

Unglingadeildin Hafbjörg
Unglingadeildin Hafbjörg var stofnuð af félögum björgunarsveitarinnar og 56 unglingum þann 14. desember 1992. Helsti tilgangur með stofnun deildarinnar var að þjálfa ungmenni til starfa í björgunarsveit þegar þau hefðu aldur til og koma á markvissri fjölgun þjálfaðra björgunarmanna í Grindavík.

Í upphafi var unglingadeildin sjálfstæð eining innan Slysavarnafélags Íslands en með nýjum lögum sameinaðra björgunarsamtaka Slysavarnafélagsins Landsbjargar heyrir unglingadeildin nú beint undir björgunarsveitina Þorbjörn. Björgunarsveitin Þorbjörn skipar umsjónarmenn með unglingadeildinni sem halda utan um starfið með unglingunum. Í dag eru stór hluti virkra félaga björgunarsveitarinnar fyrrum félagar unglingadeildarinnar.
Umsjónarmaður: Ottó Rafn Sigurðsson.

Kaldalónsklúbburinn
Var stofnaður á lokadaginn 2004. Hlutverk hans er tvíþætt. Fyrst og fremst vera að bakhjarl knattspyrnudeildar Grindavíkur en klúbburinn hittist fyrir heimaleiki Grindavíkur og greiðir mánaðarlega í sjóð sem rennur til knattspyrnunnar. Hins vegar að halda merki tónskáldsins Sigvalda Kaldalóns á lofti með því að efna til ýmissa tónleika og menningartengdra viðburða. Sigvaldi bjó í Grindavík og eitt þekktasta verk hans var Ísland ögrum skorið.
Helstu frumkvöðlar að stofnun þessa klúbbs voru Aðalgeir Jóhannsson og Hermann Ólafsson. Stofnfélagar voru 37 talsins. Aðalgeir er formaður Kaldalónsklúbbsins.

Skógræktarfélag Grindavíkur
Var stofnað árið 1957 af Ingibjörgu Jónsdóttur kvennfélagskonu sem plantaði þá strax fyrstu plöntunum í Selskógi sem er vísir að þeim skógi sem við þekkjum í dag. Félagið lagðist í dvala árið 1988.
Það var svo vaskur hópur skógræktaráhugafólks sem tók sig til og endurvakti félagið árið 2006.
Félagsmenn eru nú rúmlega 40 og þeirra bíður mikið og skemmtilegt verk.
Frá því árið 2006 hafa verið gróðursettar um 6000 plöntur.
Markmið skógræktarfélagsins eru mörg, m.a. að bæta aðkomuna að Selskógi sem er ekki góð eins og hún er í dag, gera göngustíga, grisja og gera skóginn að betra útivistarsvæði Grindvíkinga.
Við vonumst til að Grindavíkurbær og önnur fyrirtæki komi okkur til hjálpar í þeim efnum.
Von félagsins er að fá að planta trjám í trefil utan um Þorbjörn og láta gera góða gönguleið þar í kring og til bæjarins. Vonandi með auknu starfi félagsins fjölgar þeim sem vilja starfa eða styrkja Skógræktarfélag Grindavíkur því öll viljum við eiga þátt í uppgræðslu skemmtilegra útivistarsvæða fyrir Grindvíkinga í framtíðinni. Árgjaldið er 2000 krónur og eru allir velkomnir til starfa eða styrktar.

Grindavíkurdeild Rauða krossins
Grindavíkurdeild Rauða kross Íslands var fyrst stofnuð 25. júní 1963. Stofnendur voru 39 og fyrsti formaður var Bragi Guðráðsson. Starfsemi deildarinnar lagðist síðan niður um tíma en var endurvakin 22. október 1979 og var Guðfinnur J. Bergsson kjörin formaður stjórnar. Fyrsta verk þeirrar stjórnar var að festa kaup á nýjum sjúkrabíl sem starfræktur yrði héðan frá Grindavík til notkunar fyrir almenning og hefur það verið svo síðan. Árið 1998 tók Heilbrigðisstofnun Suðurnesja við rekstri sjúkrabílsins en Rauði krossinn leigir þeim húsnæði undir bílinn. Deildin er starfrækt í eigin húsnæði að Hafnargötu 13 í Grindavík.

Föst verkefni Grindavíkurdeildar undanfarin ár: Neyðarvarnir, neyðaraðstoð, Rauðakrossfræðsla til
barna, gefa börnum endurskinsmerki og reiðhjólahjálma, deildarnámskeið fyrir stjórnarfólk, verkefnisstjóra og aðra sjálfboðaliða. Námskeið í skyndihjálp - almennri / sálrænni og börn og umhverfi. Föt sem framlag, jólakort unnin af börnum send öldruðum íbúum Grindavíkur, söfnun á notuðum fatnaði og ýmis önnur verkefni.

Heimasíða: www.grindavik/raudikrossinn

Fjáreigendafélag Grindavíkur
Er félagsskapur frístundabænda og áhugamanna um sauðfjárrækt.
Heimasíða: http://fjareigendafelag.blog.is/blog/fjareigendafelag/

Brimfaxi, Hestmannafélag Grindavíkur
Hestamannafélag Grindavíkur var stofnað þann 25. mars 2010 og tilgangur félagsins að efla áhuga á hestum og hestaíþróttum í Grindavík og jafnframt gæta hagsmuna félaga sinna á því sviði. Einnig mun félagið stuðla sérstaklega að fræðslu og þjálfun unglinga og barna í hestaíþróttum.
 Stofnfélagar félagsins er 64 hestamenn á öllum aldri.

Heimasíða: www.brimfaxi.is 

Hjónaklúbbur Grindavíkur
Hjón/pör sem hafa áhuga á að ganga í Hjónaklúbb Grindavíkur verða að hafa náð 50 ára aldri til samans. Um 60 pör eru í klúbbnum. Tilgangur félagsins er að efla samskipti hjóna og para í Grindavík með því að standa fyrir fundum, samkomum og ferðalögum fyrir klúbbmeðlimi. Hjónaklúbbur Grindavíkur var stofnað 1959 og er elsti starfandi hjónaklúbbur á landinu.

Heimasíða: http://hjonaklubbur.bloggar.is/blogg/

Unghjónaklúbbur Grindavíkur
Var stofnaður 1976. Tilgangur klúbbsins er að pör/hjón komi saman og og skemmti sér vel í góðum en ólíkum félagskap. Mjög hentugt fyrir pör/hjón sem langar að skemmta sér í góðra vina hópi og kynnast nýju fólki. Nýir félagar geta gengið inn í klúbbinn hvenær sem er á árinu, en inntökuathöfn fer fram á nýársballi. 

Heimasíða: http://unghjonaklubbur.bloggar.is/sida/47762/

Kvenfélag Grindavíkur: 
Guðrún Þorvarðardóttir, húsmóðir (1886-1941), var fyrsti formaður Kvenfélags Grindavíkur og átti mestan þátt í stofnun félagsins. Hún varð síðar einnig fyrsti heiðursfélagi þess. Hún áleit að í hreppnum mætti áorka miklu ef konur tækju sig saman og mynduðu með sér félagsskap í líkingu við þau kvenfélög sem víða höfðu verið stofnuð. Tilgangur með stofnun Kvenfélags Grindavíkur var að efla samúð og samvinnu meðal kvenna í Grindavík. Sérstaklega vill það leggja lið einstaklingum og ekkjum, sem á einhvern hátt eru hjálparþurfandi, eins og segir í bókinni Saga Grindavíkur. Kvenfélagið réðst í það stórvirki að reista félagsheimili, sem í dag nefnist Kvennó. Kvenfélagið stóð m.a fyrir útiskemmtunum í Svartsengi, víkivakanámskeiðum, skógrækt svo fátt eitt sé nefnt. Starfsemin má segja að hafi verið undirstaða menningarstarfsemi í Grindavík. Kvenfélagið hefur einnig lagt kirkjunni lið, bæði með vinnukrafti og peningagjöfum. Í dag eru 170 félagar í Kvenfélagi Grindavíkur og starfsemin öflugri sem nokkru sinni fyrr.

Pílukastklúbbur Grindavíkur
Pílukastklúbbur Grindavíkur var stofnaður 1997 og hefur haldið opin mót sem notið hafa vinsælda á hverju ári. Félagið hefur haft aðstöðu í Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða frá upphafi. Ægir Ágústsson var fyrsti Íslandsmeistari Grindavíkinga, 1986, og svo aftur 1987. Grindavík sópaði til sín titlum, Pétur Hauksson varð Íslandsmeistari 1988 og bróðir hans, Guðjón, varð svo Íslandsmeistari alls 11 sinnum frá 1990. Þá hefur Guðjón, ásamt Friðrik Jakobssyni, náð þeim magnaða árangri að verða Norðulandameistarar í tvímenningi árið 1993. Árið 1997 náði Guðjón þeim merka áfanga að slá fyrverandi heimsmeistarann Ritche Burnet úr 64 manna úrslitum sem vakti mikla athygli á Winmau mótinu í Bretlandi á sínum tíma. Pílukastklúbbur Grindavíkur hefur staðið fyrir árlegu stórmóti, Grindavík Open, frá 1998 og þá hefur Ágúst Bjarnason haldið árlegt afmælismót í maí.

Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur
Hinn 21. október boðaði stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur til fundar í Kvenfélagshúsinu til þess að stofna sérstaka sjómannadeild innan Verkalýðsfélagsins. Á fundinn mættu 29 menn. Formaður Verkalýðsfélagsins, Svavar Árnason, las upp reglugerð fyrir sjómannadeildina, en í annarri grein hennar sagði, að tilgangur deildarinnar væri að gæta hagsmuna sjómanna og fara með kjarasamninga fyrir þá, og yfirleitt fjalla um öll þau félagslegu málefni, sem sjómannastéttina varða. Eftir að fundarmenn höfðu samþykkt reglugerðina, fór fram stjórnarkosning og var Ragnar Magnússon kosinn formaður og Þórarinn Ólafsson ritari. Árið 1979 urðu þær breytingar á högum Sjómannadeildarinnar að vélstjórar bættust í hópinn og var þá um leið samþykkt að framvegis skyldi deildin heita Sjómanna- og vélstjóradeild Grindavíkur. Árið 1976 voru samþykkt ný lög fyrir Sjómanna- og vélstjóradeildina, hún leyst undan öllum skyldum við Verkalýðsfélagið og gerð að sjálfstæðu félagi undir nafninu Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur. Félagið byggði sjómannastofuna Vör , beitti sér fyrir því að reisa minnisvarða um drukknaða sjómenn og gefur út Sjómannadagsblað Grindavíkur og á auk þess tvo sumarbústaði.

Heimasíða: www.svg.is

Verkalýðsfélag Grindavíkur
Laugardaginn 13. febrúar árið 1937 var haldinn fundur í Kvenfélagshúsinu í Grindavík. Til fundarins boðuðu nokkrir verkamenn sem höfðu í huga að stofna með sér verkalýðsfélag og mættu 25 menn. Fundinn setti Erlendur Gíslason og lýsti tilgangi fundarboðsins. „Voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að stofna verkalýðsfélag sem léti sig skipta kjör manna, bæði á sjó og landi."

Fyrir utan hefðbundin störf stéttarfélaga stofnaði félagið, ásamt atvinnurekendum, sér lífeyrissjóð árið 1970. Sjóðurinn fékk nafnið Lífeyrissjóður verkafólks í Grindavík. Hann var síðar sameinaður Lífeyrissjóði Suðurnesja þann 1. janúar árið 2000.

Verkalýðsfélag Grindavíkur á núna allt Verkalýðshúsið að Víkurbraut 46. Félagið byggði húsið í samvinnu við lífeyrissjóðinn en þegar hann sameinaðist Suðurnesjasjóðnum keypti verkalýðsfélagið hlut sjóðsins.

Heimasíða:  www.vlfgrv.is 

UMFG
Ungmennafélag Grindavíkur (UMFG) var stofnað 3. febrúar 1935 en hét þá Íþróttafélag Grindavíkur en var breytt í UMFG 1963 eftir að hafa legið í dvala um hríð. Malarvöllurinn, þar sem nú er aðalvöllur félagsins, var tekinn í notkun 1948. Knattspyrnulið UMFG tók fyrst þátt í deildarkeppni 1969 og vann sér fyrst sæti í úrvalsdeild 1994 og lék sama ár til úrslita um bikarmeistaratitilinn. UMFG hefur leikið í efstu deild síðan þá, ef undan er skilið 2007. Bylting varð haustið 2008 þegar opnað var nýtt fjölnota knattspyrnuhús. Saga körfuboltans í Grindavík hófst 1957 en körfuknattleiksdeildin var stofnuð 1974. Heimaleikir UMFG voru í fyrstu spilaðir í Njarðvík en en bylting varð með nýju íþróttahúsi 1985. UMFG hefur unnið einn Íslandsmeistaratitil í karlaflokki og einn í kvennaflokki auk bikarmeistaratitla.

Heimasíða UMFG: www.umfg.is

Golfklúbbur Grindavíkur
Golfklúbbur Grindavíkur var stofnaður 14. maí 1981. Jóhann Möller átti sumarhús í Staðarhverfi og hafði útbúið 4 brautir og holur á bökkunum. Hann hvatti heimamenn eindregið til að koma og spila og til að stofna golfklúbb og færa út kvíarnar. Völlurinn er nú 13 holur, fimm þeirra eru á bökkunum og átta eru norðan þjóðvegarins og teygja sig skemmtilega inn í hraunið í austurátt. Stefnt er að því að stækka völlinn í 18 holur á næstu misserum.

Heimasíða: www.gggolf.is

Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR

Nýjustu fréttir 11

Hátíđlegt í jólamat

 • Grunnskólafréttir
 • 14. desember 2018

Jólalegt í morgunsöng

 • Grunnskólafréttir
 • 13. desember 2018

Undanúrslitum spurningakeppninnar lokiđ

 • Grunnskólafréttir
 • 11. desember 2018

Auglýst eftir dagforeldri

 • Fréttir
 • 11. desember 2018

Nemendur tónlistarskólans komu fram viđ tendrun jólatrés

 • Tónlistaskólafréttir
 • 10. desember 2018

Snjókarlagerđ í núvitund

 • Grunnskólafréttir
 • 7. desember 2018

Vilhjálmur Árnason rćddi orkumál viđ nemendur

 • Grunnskólafréttir
 • 6. desember 2018

Jólatónleikar kórs Grindavíkurkirkju

 • Fréttir
 • 5. desember 2018