Fasteignaskrár

  • 15. nóvember 2010

Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 skal Fasteignaskrá ríkisins annast rekstur gagna- og upplýsingakerfis er nefnist Landskrá fasteigna.

Í Landskrá fasteigna skal skrá allar fasteignir í landinu og er hún grundvöllur skráningar fasteigna, þinglýsingabókar, mats fasteigna og húsaskrár Hagstofu Íslands og þjóðskrár.

Byggingarfulltrúi er ábyrgur fyrir að Fasteignamati ríkisins berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sem gerð eru í Grindavíkurbæ og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra. Stærðarskráning mannvirkja er sett fram í skráningartöflum.

Ennfremur tilkynnir byggingarfulltrúi um framvindu byggingarstiga svo og eigendaskráningu nýrra fasteigna.

Byggingarstjóra er skylt að tilkynna til byggingarfulltrúa þegar bygging er fokheld.

Byggingarfulltrúa er einhliða heimilt að tilkynna Fasteignamati ríkisins þegar bygging er fokheld vanræki byggingarstjóri skyldur sínar.

Fasteignamat
Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 metur Fasteignamat ríkisins lóðir, lönd og mannvirki fasteignamati og skráir það í Landskrá fasteigna.
Lóðir eru metnar til fasteignamats við skráningu þeirra í Landskrá fasteigna.
Mannvirki eru fyrst metin fasteignamati, án skoðunar, þegar hús eru fokheld.
Mannvirki eru metin fasteignamati, með skoðun, þegar hús eru tekin í notkun og þar til þau eru fullgerð.

Fasteignagjöld
Byggingarfulltrúi sér um viðhald álagningastofna sem notaðir eru til álagningar fasteignagjalda.

Fasteignagjöld eru lögð á lóðir þegar þær hafa verið metnar fasteignamati og fyrst á mannvirki þegar þau eru fokheld.

Brunabótamat
Fasteignamat ríkisins annast virðingu mannvirkja til brunabóta og skráir það í Landskrá fasteigna samkvæmt lögum um brunatryggingar nr. 48/1994 og reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000.

Húseigendum er skylt að brunatryggja allar húseignir.
Hús í smíðum er eigendum einnig skylt að brunatryggja á smíðatímanum. Fer um vátryggingarupphæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eigenda og vátryggingarfélags. Byggingarfulltrúa er ekki heimilt að gefa út fokheldisvottorð nema mannvirki séu brunatryggð.

Húseigandi ber ábyrgð á því að tilkynna Fasteignamati ríkisins eigi síðar en 4 vikum eftir að nýtt hús eða viðbygging er tekin í notkun eða eftir að byggingu þeirra lauk, eftir því sem við á.

Fasteignamati ríkisins er heimilt að reikna brunabótamat án skoðunar m.a. ef húseigendur sinna ekki skyldum sínum.
Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með því að húseigendur sinni skyldum sínum um tilkynningu til Fasteignamats ríkisins í þessum efnum.

Skipulagsgjald
Samkvæmt 35. gr. skipulags- og byggingarlaga og reglugerð um skipulagsgjald nr. 737/1997, skal greiða skipulagsgjald, sem rennur í ríkissjóð, í eitt skipti af nýbyggingum hverrar húseignar sem nemur 0,3 % af brunabótamati. Nýbygging telst hvert nýreist hús svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 af verði eldra húss.

Skipulagsgjald fellur í gjalddaga þegar virðingargjörð brunabótamats hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins hefur tilkynnt hana til innheimtumanns ríkissjóða.

Hluti skipulagsgjalds rennur til viðkomandi sveitarfélags og hefur byggingarfulltrúi eftirlit með að aðilar sinni skyldum sínum í þessu efni.

Eignaskiptayfirlýsingar
Byggingarfulltrúi áritar eignaskiptayfirlýsingar áður en þeim er þinglýst, til staðfestingar á því að þær séu í samræmi við samþykktar teikningar og að þær séu unnar í samræmi við reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar nr. 910/2000.

 

 

Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR