Skipulag: Spurningar og svör

  • 16. mars 2009

Hvað er Aðalskipulag Grindavíkur?
Aðalskipulag Grindavíkur 2000-2020 er skipulagsáætlun fyrir bæjarfélagið og tekur til alls lands bæjarfélagsins. Í aðalskipulagi setur bæjarstjórn fram stefnu sína um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í bæjarfélaginu til ársins 2020. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir deiliskipulagsgerð einstakra svæða í bæjarfélaginu.


Hvað er deiliskipulag?
Deiliskipulag nær til einstakra svæða eða reita innan bæjarfélags og er byggt á aðalskipulagi. Hlutverk þess er að útfæra nánar stefnu og ákvæði aðalskipulags og skapa þannig grundvöll að leyfisveitingum til mannvirkjagerðar á viðkomandi svæði. Í deiliskipulagi er sett fram stefna og áætlun bæjarstjórnar um notkun svæða og einstakra lóða sem og um gerð og ásýnd byggðar eða óbyggðra svæða. Meðal þess sem kveðið er á um í deiliskipulagi eru lóðastærðir, byggingarreitir, byggingarmagn, húsagerðir, hæð húsa, umferðakerfi, bílastæði og útivistarsvæði. Jafnframt er gerð grein fyrir takmörkunum á landnotkun t.d. vegna náttúrufars, náttúruvár eða menningarminja og settar kvaðir um verndun umhverfis og byggðar.


Hvað tekur langan tíma að breyta deiliskipulagi?
Minnst 3 mánuði ef allt gengur að óskum. Þegar uppdrættir eru komnir inn til skipulagsfulltrúa tekur skipulags- og bygginganefnd ákvörðun um að auglýsa erindið og vísar því svo í borgarráð sem samþykkir að það megi auglýsa málið. Að því loknu er auglýst í öllum blöðum og Lögbirtingablaðinu og er auglýsingatími (athugasemdarfrestur) 6 vikur. Að því loknu þarf, ef athugasemdir berast, að fara yfir þær, tekur mislangan tíma eftir umfangi athugasemda, og þá fer málið yfirleitt aftur til skipulags- og bygginganefndar. Síðan er erindið sent til Skipulagsstofnunar og þegar þeir eru búnir að yfirfara og samþykkja afgreiðslu málsins er það sent til auglýsingar/staðfestingar í B-deild Stjórnartíðinda. Þegar erindið hefur birst þar er því endanlega lokið.

 

 

Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR